45% hækkun á mat skólabarna

45% hækkun á mat skólabarna

Nú liggur fyrir að samningur við Skólamat ehf hækkar um rúm 20% þrátt fyrir að fyrri samningur hafi verið vísitölutryggður. Það þýðir að matur skólabarna hækkar um 45% milli ára (sjá samanburð í frétt RÚV). Samningurinn var lagður fyrir bæjarráð viku áður en skólinn byrjar og því lítið svigrúm til að gera annað en að samþykkja framlenginguna.

Fulltrúar Samfylkingar og óháðra skora á Seltjarnarnesbæ að nýta árið sem fram undan er til að undirbúa útboð fyrir næsta skólaár til að tryggja hagkvæmni í rekstri og lágmarka gjaldtöku á íbúa.

Samkvæmt heimasíðu Skólamatar er Seltjarnarnesbær það sveitarfélag sem niðurgreiðir skólamat minnst allra sveitarfélaga og því finna foreldrar vel hækkunum á samningi bæjarins. Sem dæmi má nefna þá kostar 78% meira að kaupa Skólamat á Seltjarnarnesi en hjá Suðurnesjabæ og 33-48% dýrara að kaupa Skólamat hér heldur en í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

Samkvæmt nýrri gjaldskrá borga foreldrar Skólamat fyrir 20 daga:
25.320 kr fyrir 1 barn
50.640 kr fyrir 2 börn
75.960 kr fyrir 3 börn

Á fundi bæjarstjórnar 23. ágúst síðastliðinn spurðu bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra eftirfarandi spurninga:

Er vilji hjá Sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi til að taka upp systkinaafslátt á skólamat?
Er vilji hjá Sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi til að hækka niðurgreiðslu á Skólamat svo hann hækki ekki umfram verðbólgu?

Svör Sjálfstæðismanna voru ekki skýr en ekki var lokað á þessar hugmyndir og munu bæjarfulltrúar XS koma þessum tillögum áfram.

en_USEnglish