Better town for us all

Betri bær fyrir okkur öll
1. Guðmundur Ari Sigurjónsson

Nú styttist í að við kjósum nýja bæjarstjórn á Seltjarnarnesi og er mikilvægt að íbúar noti þessi tímamót til að hugsa hvernig bæ við viljum búa í. Síðastliðin fjögur ár hafa einkennst af slæmum rekstri Seltjarnarnesbæjar þar sem tekjur hafa ekki dugað til að greiða fyrir þá þjónustu sem bærinn er að veita. Tap bæjarsjóðs Seltjarnarnesbæjar er um 1400 milljónir og skuldir sveitarfélagsins hafa farið úr 2,3 milljörðum árið 2017 upp í rúmlega 6 milljarða árið 2021. Meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur reynt að bregðast við þessari slæmu rekstrarstöðu með því að m.a. fresta framkvæmdum á nýjum leikskóla sem þau lofuðu fyrir síðustu kosningar, með því að hækka matarkostnað í leik- og grunnskóla og með því að skera niður í forvarnarmálum. Þessar ákvarðanir hafa ekki verið vinsælar hjá bæjarbúum og sjáum við það meðal annars í árlegri þjónustukönnun Gallup en á kjörtímabilinu fór sveitarfélagið úr því að vera í efstu sætum þegar ánægja íbúa á þjónustu og stjórnun er mæld og niður í þau neðstu.

Þetta þarf þó ekki að vera svona, við getum byggt betri bæ fyrir okkur öll. Síðastliðið haust hækkuðu bæjarfulltrúar Samfylkingar, Neslista/Viðreisnar ásamt Bjarna Torfa sem þá var bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna útsvarsprósentu bæjarbúa úr 13,7% upp í 14,09%. Þessi hækkun nemur 390 krónum á hverjar 100.000 krónur sem íbúi á Seltjarnarnesi er með í laun en skilar um 100 milljónum í bæjarsjóð. Þessar 100 milljónir nýtast til að koma í veg fyrir áframhaldandi taprekstur og skuldasöfnun sem sparar vaxtakostnað og skapar svigrúm til þess að byggja upp betri bæ fyrir okkur öll.

Better town for our children

Samfylking og óháðir vilja byggja upp betri bæ fyrir börn með því tryggja gott húsnæði og skólalóðir á öllum skólastigum sem styður við fagstarf, skólaþróun og vellíðan barna og starfsfólks. Við ætlum að byggja upp nýjan leikskóla og stórefla skólalóð Grunnskóla Seltjarnarness. Við viljum efla skólaþjónustu við öll skólastigin okkar með áherslu á snemmtæka íhlutun, samstarf stofnana og greiðan aðgang að viðunandi úrræðum á réttum tíma til að tryggja að ekkert barn falli á milli kerfa og að öll börn fái tækifæri til að blómstra. Við viljum bjóða öllum börnum 5 ára og eldri 75.000 króna tómstundastyrk og snúa við niðurskurði í félags- og forvarnarmálum svo öll börn fái tækifæri til að stunda fjölbreytt og öflugt íþrótta- og tómstundastarf.

Öflugur og spennandi miðbær

Samfylking og óháðir vilja byggja upp öflugan og spennandi miðbæ með því að endurskipuleggja Eiðistorg með svipuðum hætti og gert var á Garðatorgi. Þar var bílastæðið rammað betur inn með nýjum húsum þar sem verslanir eru á jarðhæð og íbúðir á efri hæðum. Bílastæði eru færð neðanjarðar að hluta, íbúum fjölgar og ný og spennandi verslunarrými verða til sem snúa beint út á götu. Við gerð skipulagsins munum við horfa til þess að íbúðirnar verði fjölbreytt blanda af húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, fjölskyldum sem og eldri borgurum sem vilja minnka við sig. 

Sækjum fram

Samfylking og óháðir á Seltjarnarnesi bjóða sig fram til að byggja upp betri bæ fyrir okkur öll og við horfumst í augu við þá staðreynd að uppbygging og bætt þjónusta kostar. Við keppumst ekki að því að lækka útsvarið á næsta kjörtímabili heldur horfum við frekar á næstu fjögur ár sem ár sóknar þar sem við ráðumst í framkvæmdir, viðhald á eignum og eflum þjónustu við íbúa á öllum aldri. Þannig bæ viljum við búa í.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Oddviti Samfylkingar og óháðra á Seltjarnarnesi

en_USEnglish