Better town for our children

Betri bær fyrir börn
2. Sigurþóra Bergsdóttir

Við í Samfylkingu og óháðum leggjum ríka áherslu á velferð barna og fjölskyldna á Seltjarnarnesi. Við viljum byggja á þeim grunni sem hér er með því að skapa umhverfi þar sem enginn verður útundan. Við teljum ríka þörf á að bæta forvarnir með því að endurreisa öflugt forvarnar- og tómstundastarf barn og unglinga, en einnig að hækka tómstundastyrk upp í 75 þúsund krónur á ári. Það skapar jákvæðan hvata til aukinnar þátttöku í íþróttum, tómstundastarfi og listum sem hefur mikið forvarnargildi í sjálfu sér. 

Sum börn þurfa af ýmsum ástæðum mikinn stuðning. Önnur þurfa bara smávægilega aðstoð á viðkvæmum aldri sem þó dugar til að leysa málin. Enn önnur þurfa meiri og langvarandi aðstoð.

Eins og staðan er nú þá missum við stundum af þeim sem við hefðum getað byrjað að veita stuðning snemma og fyrir vikið verða erfiðleikar þeirra meiri. Við getum gert betur til að tryggja að allir sem koma að viðkomandi barni hafi leiðir til að veita öfluga og viðeigandi fagþjónustu á réttum tíma og halda þannig utan um barnið eins og þarf. Því eins og þeir vita sem starfa með börnum þá skiptir tíminn ekki síður máli en þjónustan. Með því að veita stuðning um leið og hans er þörf má draga úr inngripum seinna meir. Þannig má stuðla að farsæld barnanna og foreldra þeirra sem og bæta allt umhverfi barnsins.

Við viljum vinna með mennta- og barnamálaráðuneytinu að því að fá fjármagn inn í sveitafélagið í gegnum hin svokölluðu farsældarlög til að byggja upp öflugt fagteymi innan fjölskyldusviðs sem vinnur þvert á alla skóla, tómstundastarf og íþróttafélag auk samstarfs við heilsugæslu. Hlutverk fagteymisins væri að vinna að skimunum, veita fræðslu og stuðning í skólunum og Gróttu, þjálfa upp stuðning við börn sem fylgir þeim í gegnum daginn í skólanum, íþróttum- og tómstundastarfi. Þannig styðjum við börn og fjölskyldur þeirra, sem og kennara og annað fagfólk sem með börnum vinnur í að skapa umhverfi þar sem öllum getur liðið vel.

Þannig búum við til betri bæ fyrir börn.

Sigurþóra Bergsdóttir
í 2. sæti á lista Samfylkingar og óháðra

en_USEnglish