Gerum betur

Gerum betur

Nú hafa Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 en fulltrúar Samfylkingar og óháðra greiddu atkvæði gegn tillögunni. Við höfum tekið virkan þátt í fjárhagsáætlunar vinnunni og lagt fram breytingartillögur sem allar voru felldar af fulltrúum Sjálfstæðismanna.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir 9,9% gjaldskrárhækkunum á allar gjaldskrár bæjarins en fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir að hækka gjaldskrár ekki umfram verðbólguspá Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er 6,3%. Með því verjum við heimilisbókhald barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja á sama tíma og við sýnum ábyrgð þegar kemur að baráttunni gegn verðbólgu á komandi kjaravetri.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir 14,31% óbreyttu útsvari og áframhaldandi halla á rekstri bæjarsjóðs en með því uppfyllir reksturinn ekki fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir 14,70% útsvari sem er það sama og hjá Kópavogi og Hafnarfirði. Með því styrkjum við grunnrekstur bæjarins, rekum bæjarsjóð hallalausan og aukum getu okkar til að bregðast við áföllum og óvæntum uppákomum án lántöku.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna setur lágmarksupphæð í endurbætur á skólalóð Mýrarhúsaskóla og ekki krónu í endurbætur á félagsheimili eða endurnýjun á gervigrasi Vivaldi vallarins. Fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir að standa við gefin loforð um að klára endurbætur á félagsheimilinu á 50 ára afmælisári bæjarins. Við lögðum  til að endurnýja gervigrasið á Vivaldi vellinum til að tryggja öryggi knattspyrnuiðkenda á Seltjarnarnesi og nýta gamla grasið til að ráðast í endurbætur á fótboltavelli Mýrarhúsaskóla. Allar þessar framkvæmdir hefðu verið fjármagnaðar án lántöku vegna sölu á hjúkrunarheimilinu Seltjörn.

Það er ljóst að fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna uppfyllir hvorki lagalegar kröfur sveitarstjórnarlaga né væntingar Seltirninga um að búa í sterku sveitarfélagi með öfluga innviði sem tryggja börnum samkeppnishæfa aðstöðu á lóð grunnskólans eða til íþróttaiðkunar. Þess vegna greiða bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra gegn þessari tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bókun vegna fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar árið 2024.

en_USEnglish