Gjöld hækkuð um tugi prósenta

Gjöld hækkuð um tugi prósenta

Nú hefur meirihlutinn lagt fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem gerir ráð fyrir áframhaldandi halla á rekstri bæjarsjóðs sem uppsafnað nálgast 2 milljarða. Þrátt fyrir þennan mikla halla leggur meirihlutinn til óbreytta útsvarsprósentu sem mun binda hendur bæjarins þegar kemur að þjónustu við íbúa, viðhaldi og fjárfestingum.

Meirihlutinn hikar þó ekki við að hækka hressilega öll gjöld á íbúa sem er skattheimta sem leggst þyngst á barnafjölskyldur, aldraða og tekjulægri íbúa sveitarfélagsins.

Allar gjaldkskrár munu hækka um að minnsta kosti 9,9% sem er 87% hærri prósenta en meðaltals verðbólguspá seðlabankans, hagstofunar og bankana fyrir árið 2024. Til viðbótar við flata gjaldskrárhækkun er gert ráð fyrir að hækka sorphirðugjald á íbúa um 36% og gjald fyrir heitt vatn um 38% á næstu tveimur mánuðum.

Fjárfestingaráætlun bæjarins sýnir að ekki á að setja krónu í endurbætur á félagsheimilinu, vallarhúsi Gróttu eða endurnýjun á gervigrasinu. Áætlað er að setja 30 milljónir í skólalóð Mýrarhúsaskóla en ekki liggur fyrir hve mikið hægt er að gera fyrir þá upphæð en til samanburðar hafa endurbætur á skólalóðum í Vesturbænum kostað á bilinu 100-200 milljónir.

Samfylking og óháðir munu beita sér milli umræðna fyrir því að við treystum grunnrekstur bæjarins með sanngjörnum hætti til að skapa svigrúm fyrir bætta þjónustu, aukið viðhald og endurbætur á grunninviðum bæjarins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

en_USEnglish