Útsvarshækkun varði grunnrekstur

Útsvarshækkun varði grunnrekstur

Bókun Samfylkingar og óháðra við afgreiðslu ársreiknings 2022 – Linkur á ársreikning 2022 neðst.

Nú hefur ársreikningur fyrir árið 2022 verið lagður fram til seinni umræðu en hann ber þess skýr merki hversu mikið heillaskref var stigið þegar bæjarfulltrúar þvert á flokka lögðu til að hækka útsvarið fyrir árið 2022. Sú hækkun ver grunnrekstur sveitarfélagsins í ólgusjó ytri aðstæðna eins og sjá má í skýringu 26. Þar sést að tekjur og gjöld A sjóðs eru í ágætu jafnvægi með halla upp á 19 milljónir í stað halla upp á 395 milljónir árið áður.

Skuldsetning síðastliðinna ára vegur þó þungt í núverandi efnahagsástandi og hækka vextir og verðbætur um 220 milljónir milli ára. Skuldsetninguna má að hluta rekja til nýrra framkvæmda en einnig til skuldasöfnunar vegna hallareksturs og lántöku vegna eðlilegs viðhalds sem ætti að rúmast innan reksturs. 

Á síðastliðnum 6 árum hefur halli A sjóðs sem lögum samkvæmt á að vera rekinn í jafnvægi náð 1800 milljónum. 1800 milljónir bera vaxtakostnað upp á rúmlega 200 milljónir á hverju ári miðað við meðalvexti á lánum bæjarins og verðbólgu. Það er því dýrt fyrir íbúa bæjarins að halda lágu útsvari á sama tíma og ekki eru til peningar til að halda úti þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir og viðhalda þeim eignum sem við nú þegar eigum. 

Framundan er svo uppbygging nýs leikskóla sem mun kalla á lántöku upp á 1-2 milljarða með tilheyrandi vaxtakostnaði. Stofnanir og samtök í bænum kalla eftir auknu viðhaldi og endurbótum á skólabyggingum, íþróttamannvirkjum, skólalóðum og félagsheimili bæjarins svo nokkur dæmi séu tekin. Alls staðar heyrum við það sama, bærinn hefur verið að ýta á undan sér viðhaldi og framkvæmdum vegna skorts á fjármunum á sama tíma og meirihlutinn flytur langar ræður um að reksturinn sé sterkur og forsendur séu fyrir því að lækka skatta.

Það er ljóst að útsvarshækkunin sem samþykkt var af bæjarfulltrúum þvert á flokka var nauðsynleg til að verja rekstur bæjarins en einnig að við þurfum að leita nýrra leiða til að fjölga íbúum og selja lóðir til að fjármagna þær framkvæmdir sem við stöndum frammi fyrir. Við vonum að bæjarfulltrúar þvert á flokka séu til í það verkefni með okkur.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar 2022

en_USEnglish