225 milljón króna halli á fyrstu sex mánuðum ársins

225 milljón króna halli á fyrstu sex mánuðum ársins

Í árshlutauppgjöri Seltjarnarnesbæjar kemur fram að halli á fyrstu sex mánuðum ársins nemur 225 milljónir króna eða um 40 milljónir á mánuði. Veltufé frá rekstri lækkar um 37,5% milli ára og er aðeins 5% á fyrstu sex mánuðum ársins en Samband íslenskra sveitarfélaga telur að sveitarfélög þurfi að skila veltufé frá rekstri sem nemur 9% af tekjum þeirra til að fjárhagur þeirra geti talist sjálfbær.

Hægt er að skoða árshlutauppgjörið hér:
Árshlutauppgjör Seltjarnarnesbæjar

Ræða Guðmundar Ara bæjarfulltrúa Samfylkingar og óháðra við umræðu um árshlutauppgjörið:

„Ég vil byrja á því að þakka Svövu Sverrisdóttur og starfsfólki fjármálasviðs fyrir vel unnið árshlutauppgjör. Það er vel framsett og gagnlegt fyrir okkur í bæjarstjórninni til að rýna í rekstur bæjarins og undirbúa okkur fyrir fjárhagsáætlunarvinnuna sem því miður er enn þá fram undan en ekki hafin í bæjarstjórn eða bæjarráði.

Sex mánaða uppgjörið sýnir áframhaldandi aukningu á taprekstri sveitarfélagsins sem að mestu skýrist af því verðbólguástandi sem við Íslendingar erum farnir að kynnast allt of vel að nýju. Því miður bólar ekkert á tillögum stjórnvalda til að slá á verðbólguna. Við höfum ekki einu sinni starfandi fjármálaráðherra eftir að hann sagði af sér því hann uppfyllti ekki skyldur sínar.

Það er því mikilvægt að við í bæjarstjórninni tökum rekstur bæjarins föstum tökum strax enda stöndum við í miklum viðhaldsframkvæmdum samhliða því að fram undan eru nýframkvæmdir á leikskóla og endurbætur á íþróttamannvirkjum.

Við þurfum að velta öllum steinum og skoða hvort forsendur séu fyrir því að innheimta áfram lægra útsvar en nágrannasveitarfélögin þegar við vitum að útsvarið hefur ekki staðið undir þeirri þjónustu sem við veitum og íbúar kalla eftir síðastliðin 7 árin.

Ég hef einnig kallað eftir því að bæjarstjóri skipi hóp sem fari í að skoða tækifæri á skipulagningu miðbæjarsvæðisins með það að markmiði að selja land og fjölga íbúum. Þennan bolta hefur bæjarstjóri því miður ekki gripið og vil ég hvetja hann til að setja þessa vinnu í gang sem allra fyrst.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

is_ISIcelandic