Grænn og vænn bær

Umhverfið í öndvegi

Vistkerfi jarðar eiga undir högg að sækja og er ákvörðun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vestursvæðunum sem og er verndun strandlengjunnar hringinn í kringum Seltjarnarnes grundvallaratriði í baráttunni við loftslagsbreytingar. Samfylkingin og óháðir eru fylgjandi sameiginlegri tillögu Umhverfisstofnunnar og Umhverfisnefndar Seltjarnarnesbæjar um stækkun friðlandsins umhverfis Gróttu ásamt Seltjörn en með stækkuninni næst heildstæðari vernd svæðisins vegna fuglalífs, vistgerða og jarðminja. 

Ástand fráveitu á Seltjarnarnesi er ámælisvert en niðurstöður heilbrigðiseftirlits síðustu ára sýna að fjöldi saurkólígerla í sjó er nánast viðvarandi yfir viðmiðunarmörkum og ástandið teljist reglulega með öllu ófullnægjandi. Í vatnaveðrum er skólpi dælt um yfirfall í viðtaka á Seltjarnarnesi og þaðan óhreinsuðu út í sjó við fjörumörk í Bakkavík, við Lambastaði, Eiðsvík og Norðurvík. Á sama tíma eru fjörur Seltjarnarness vinsælir viðkomustaðir barna, fjölskyldna og vatnaíþróttamanna auk þess sem skólar bæjarins nota þær til kennslu og náttúruskoðunar. Mikilvægt er að fylgja almennum reglugerðum og koma upp mælum svo hægt sé að fylgjast með flæði skólps í rauntíma en ekki síður til að upplýsa bæjarbúa um stöðuna í fjörum hverju sinni.

Stíga þarf skrefið til fulls í flokkun sorps á Seltjarnarnesi. Íbúum hefur um nokkra hríð staðið til boða að flokka pappír, ásamt því að nú er einnig hægt að safna plasti í heimilistunnuna. Samfylkingin og óháðir vilja bæta um betur og flokka allan úrgang sem fellur til frá heimilum á Seltjarnarnesi, þar með talið lífrænan úrgang. Á sama tíma viljum við innleiða hvata sem eykur vilja bæjarbúa til að flokka með nýrri gjaldskrá fyrir sorp þar sem greitt er minna fyrir flokkunartunnur og meira fyrir almenna heimilistunnu enda er kostnaður við urðun óflokkaðs heimilissorps margfalt meiri fyrir sveitarfélagið.

Gróttubyggð er nýtt tæplega 200 íbúða hverfi sem mun rísa vestast á Seltjarnarnesi, í jaðri helsta náttúru og útivistarsvæðis Seltjarnarness. Samfylkingin og óháðir vilja ræða við verktaka, fjárfesta og aðra sem koma að uppbyggingu á svæðinu um að nýtt hverfi verði byggt og skipulagt þannig að umhverfis- og vistvottun fáist en þannig verði bæði lífsgæði og umhverfisvernd tryggð. Þegar er búið að ryðja brautina í umhverfisvænum leiðum í íslenskum byggingariðnaði og hafa margir birgjar byggt upp getu til að bjóða umhverfisvænar byggingarvörur. Sannreynt hefur verið að byggingarkostnaður Svansvottaðra einbýlis- og fjölbýlishúsa sé sambærilegur og kostnaður við byggingu óvistvænna húsa. Til viðbótar er viðhalds og rekstrarkostnaður slíkra húsa ekki meiri. Þá er mikilvægt að tryggja góða ljósvist í Gróttubyggð þannig að ekki gangi á myrkurgæði Vestursvæðanna sem eru einstök náttúrugæði á höfuðborgarsvæðinu öllu þegar kemur að náttúrugæðum himinhvolfsins.

Samfylkingin leggur áherslu á orkuskipti í samgöngum og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Samfylkingin stefnir á uppsetningu hleðslustöðva við helstu stofnanir bæjarins í samstarfi við aðila á orkumarkaði. Þannig geti bæjarbúar hlaðið bílana sína á einfaldan og aðgengilegan hátt. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 70 þúsund á næstu 20 árum og umferðarþungi um 65%. Samfylkingin og óháðir vilja tryggja vandað og öflugt samgöngukerfi fyrir fjölbreytta samgöngumáta til einkanota, hefðbundið og seinna meir hágæðakerfi almenningssamgangna, sem flytja mun íbúa Seltjarnarness óhindrað með vistvænum, öruggum og skjótum hætti frá Eiðistorgi og um allt höfuðborgarsvæðið. Þá verði sett upp hjólaskýli við stofnanir bæjarins.

Samfylking og óháðir vilja:

  • Samþykkja nýja skilmála á friðun Gróttu og nærumhverfis 
  • Hefja vinnu við að skoða frekari friðlýsingar á Vestursvæðunum
  • Setja upp snyrtilegar grenndarstöðvar á Seltjarnarnesi og auka möguleika íbúa á flokkun við heimahús í samræmi við ný undirritað samkomulag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um samræmda sorphirðu og flokkun
  • Styðja við grænar samgöngur með því að
    • Leggja hjólastíg við Nesveg
    • Setja upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla
    • Bæta gönguleiðir og öryggi gangandi vegfarenda
    • Fá stofnleið strætó á Nesið
    • Setja upp hjólaskýli við stofnanir bæjarins
  • Auka umhverfisfræðslu á öllum skólastigum á Seltjarnarnesi
  • Minnka vind og auka kolefnisbindingu með aukinni gróðursetningu trjáa á Seltjarnarnesi

Stýring ferðaþjónustu

Ferðamönnum mun fara fjölgandi á Seltjarnarnesi á ný samhliða auknum straumi ferðamanna til Íslands á næstu misserum. Leiða má líkurnar að því að leið þeirra muni liggja að einu helsta kennileiti höfuðborgarsvæðisins Gróttuvita, sem dregur að sér erlenda og innlenda gesti allt árið um kring, áhugafólk um norðurljós að vetri og náttúru og fuglalíf að sumri. Þá er viðbúið að varanlegt safnahús Náttúruminjasafn Íslands sem staðsett verður, þar sem í yfir áratug stóð til að opna Lækningaminjasafn, muni draga að sér enn stærri hóp en áður.

Sjálfbærni í ferðaþjónustu snýr að þekkingu á þeim takmörkum sem náttúran setur okkur.

Samfylkingin og óháðir munu á kjörtímabilinu leggja áherslu á markvissa stýringu enda er hún lykill að farsælli og sjálfbærri uppbyggingu og verndun viðkvæmra og friðlýstra svæða á Nesinu. Samfylking og óháðir leggja áherslu á smíði áfangastaðaáætlunar fyrir bæinn. Í áætluninni verði teknar saman helstu aðgerðir er snúa að uppbyggingu innviða, stýringar, þjónustu og upplifunnar á Seltjarnarnesi á næsta kjörtímabili með skilgreindum markmiðum og víðtæku samráði við alla hagaðila. Áætlunin miði að því að upplifun af svæðinu standist væntingar ferðamannsins, styðji við atvinnurekstur en sé á sama tíma í sátt við íbúa og umhverfi. 

Meðal forgangsverkefna verði að skipuleggja svæðið í kringum Gróttu með áherslu á varðveislu náttúru og menningararfleifðar enda felst aðdráttarafl svæðisins í stórbrotinni náttúrufegurð, fuglalífi, menningu og sögu. Náttúruminjasafn fengi hlutverk miðstöðvar þar sem gestir eru upplýstir um svæðið og umgengni í lifandi umhverfi. Forsendur skapist þar með fyrir lifandi safnastarfi í Nesstofu og verður slíkt rætt við Þjóðminjasafn Íslands. Finna þarf athafnasvæði bæjarins framtíðarstað. Leggja þarf áherslu á gangandi og hjólandi umferð með markvissri uppbyggingu stígakerfis sem tengir saman þjónustu og áningastaði. Bæta þarf reglum um drónaflug við lögreglusamþykkt bæjarins. 

Ákvarðanir um fjárveitingu af hálfu ríkisins til uppbygginar áfangastaða er tekin í gegnum Landsáætlun, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Ferðamálastofu. Samfylkingin og óháðir leggja áherslu á að vegna sérstöðu sinnar verði Vestursvæðin sett á forgangslista yfir áfangastaði á höfuðborgarsvæðinu sem veita þurfi fjármagn til. Við áætlanagerðina verði stuðst við skýrslu nefndar um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi sem unnin var árið 2016, til viðbótar við mörkun svæðisins í Aðalskipulagi bæjarins. Einnig verði tekið verði mið af leiðbeiningariti Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands Góðir staðir, um uppbyggingu ferðamannastaða.

Samfylking og óháðir vilja:

  • Smíða áfangastaðaáætlun fyrir uppbyggingu innviða á Seltjarnarnesi
  • Sækja fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða
  • Skipuleggja nýtingu á svæðið í kringum Gróttu með áherslu á varðveislu náttúru og menningararfleifðar
  • Leggja göngustíga sem tengja saman þjónustu og einstök náttúrusvæði í Framnesi og Snoppu.
  • Leggja hjólastíg meðfram ströndinni til að skilja að gangandi og hjólandi umferð
  • Tryggja landvörslu yfir varptímann
  • Takmarka drónaflug yfir varp á varptíma með lögreglusamþykkt
is_ISIcelandic