Dýrkeypt mistök bæjarstjóra

Dýrkeypt mistök bæjarstjóra

Nú liggur fyrir að vanræksla bæjarstjóra og skortur á eftirfylgni hjá formanni bæjarráðs varðandi innheimtu gjalda fyrir hitaveitu er að kosta bæinn minnst 20 milljónir á þessu ári.  

Á fundi Veitustjórnar þann 14. desember 2022 var tekin ákvörðun um hækkun gjaldskrár. Þessari ákvörðun var ekki framkvæmd.

Það er grundvallaratriði að framkvæmdastjóri fylgi eftir ákvörðun stjórnar. Ábyrgð bæjarstjóra á þessu klúðri er mikil og lýsir vanhæfni við stjórn fjármála bæjarins.

Á fundi veitustjórnar þann 25. október kom fyrst fram rekstrarvandi Hitaveitunnar. Stjórn hafði engar upplýsingar fengið fyrr. Nefna má að enginn fundur hafði verið haldinn síðan í maí og var ekki boðað til fundar fyrr en fulltrúi minnihlutans bað um fund.

Á þessum fundi komu samt ekki fram fullnægjandi skýringar á rekstrarvanda og var það ekki fyrr en fulltrúi minnihluta rannsakaði málið að upp komst um það.

Við samanburð strax á fyrstu mánuðum ársins og síðan allt árið hefði það átt að blasa við að áætlunin var miklu hærri en rauntölur sömu mánuði, og hefði það átt að hringja viðvörunarbjöllum. Nú hefur bæjarstjóri beðist afsökunar á þessum mistökum en hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig ekki í rekstri bæjarins? Enn hefur ekki verið kynnt frávikagreining á þeim fjárhagsliðum sem ekki eru í samræmi við fjárhagsáætlun þessa árs. Hvenær má búast við þeirri greiningu? Geta fleiri mistök hafa átt sér stað?

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er tekið fram í grein nr. 35 mikilvægi og hlutverk bæjarráða. En þar stendur að bæjarráð sé með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess, semur drög að fjárhagsáætlun og viðaukum við hana og leggur þau fyrir sveitarstjórn. Eftirlitshlutverk bæjarráða er mikið. 

Þá kemur fram í 55. grein að hlutverk framkvæmdastjóra bæjarins, sem æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins, sé enn meira. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum og samþykktum. Þá kemur einnig fram að framkvæmdastjóri beri einnig ábyrgð á að ákvarðanir þær sem teknar eru af hálfu sveitarstjórnar og annarra nefnda komist til framkvæmda, hafi sveitarstjórn ekki falið það öðrum.

Við viljum með þessari bókun ítreka mikilvægi þessara tveggja embætta framkvæmdastjóra og formanns bæjarráðs í stjórnsýslu bæjarfélagsins. Frávikagreining þarf að berast til bæjarfulltrúa mánaðarlega svo hægt sé að koma í veg fyrir mistök eins og rædd hafa verið í fjölmiðlum varðandi tap Hitaveitunnar.

is_ISIcelandic