Stanslaus hallarekstur Seltjarnarnesbæjar

Stanslaus hallarekstur Seltjarnarnesbæjar

Nú liggur fyrir ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023 og er ljóst að bæjarsjóður skilar 867 milljón króna tapi en það er 115% aukning á halla bæjarins milli ára. Hallarekstur bæjarins nemur 20% af skatttekjum bæjarins og uppsafnað tap síðastliðinna ára nálgast þrjá milljarða.

Tapið skýrist að hluta til af framkvæmdum á skólahúsnæði vegna myglu upp á 241 milljón króna og lífeyrisskuldbindingu en rekstraráhrif vegna hennar jukust um 160 milljónir milli ára. Eftir stendur rekstrarhalli upp á rúmlega 400 milljón krónur sem ef stæði einn og sér væri næst versta rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar í sögunni.

Langtímaskuldir jukust um 18% á árinu, eigið fé lækkaði um 25% og yfirdráttur hækkaði um 20%. Uppsafnaður halli á rekstri bæjarins nálgast nú þrjá milljarða, hallinn er fjármagnaður með lánum og yfirdrætti sem safna vöxtum sem gerir rekstur bæjarins þyngri á hverju ári.

Þótt útlitið sé svart þá er hægt að snúa við rekstri bæjarins en þá þurfum við meirihluta sem er óhræddur að taka ákvarðanir og bregðast við stöðunni af festu. Við í Samfylkingu og óháðum höfum lagt fram á hverju ári breytingartillögu á útsvarsprósentu bæjarins til að fjármagna þá þjónustu sem íbúar kalla eftir. Einnig höfum við síðastliðin ár lagt fram að hefja skipulag á miðbæjarsvæðinu okkar með það fyrir augum að efla miðbæinn og selja lóðir til að fjármagna framkvæmdir.

Ef þessar tillögur hefðu verið samþykktar værum við ekki að glíma við þennan mikla hallarekstur, skuldir sveitarfélagsins væru lægri með tilheyrandi lækkun á vaxtakostnaði og við hefðum meiri burði til að ráðast í framkvæmdir og sinna viðhaldi á stofnunum bæjarins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

is_ISIcelandic