Samfylking og óháðir leggja ríka áherslu á velferð barna og fjölskyldna á Seltjarnarnesi. Við viljum byggja á þeim grunni sem hér er með því að skapa umhverfi þar sem enginn verður útundan. Við teljum ríka þörf á að bæta forvarnir með því að endurreisa öflugt forvarnar- og tómstundastarf barna og unglinga, en einnig að hækka tómstundastyrk upp í 75 þúsund krónur á ári. Það skapar jákvæðan hvata til aukinnar þátttöku í íþróttum, tómstundastarfi og listum sem hefur mikið forvarnargildi í sjálfu sér.
Sum börn þurfa af ýmsum ástæðum mikinn stuðning. Önnur þurfa bara smávægilega aðstoð á viðkvæmum aldri sem þó dugar til að leysa málin. Enn önnur þurfa meiri og langvarandi aðstoð. Eins og staðan er nú þá missum við stundum af þeim sem við hefðum getað byrjað að veita stuðning snemma og fyrir vikið verða erfiðleikar þeirra meiri. Við getum gert betur til að tryggja að allir sem koma að viðkomandi barni hafi leiðir til að veita öfluga og viðeigandi fagþjónustu á réttum tíma og halda þannig utan um barnið eins og þarf. Því eins og þeir vita sem starfa með börnum þá skiptir tíminn ekki síður máli en þjónustan. Með því að veita stuðning um leið og hans er þörf má draga úr inngripum seinna meir. Þannig má stuðla að farsæld barnanna og foreldra þeirra sem og bæta allt umhverfi barnsins.
Við viljum vinna með mennta- og barnamálaráðuneytinu að því að fá fjármagn inn í sveitafélagið í gegnum hin svokölluðu farsældarlög til að byggja upp öflugt fagteymi innan fjölskyldusviðs sem vinnur þvert á alla skóla, tómstundastarf og íþróttafélag auk samstarfs við heilsugæslu. Hlutverk fagteymisins væri að vinna að skimunum, veita fræðslu og stuðning í skólunum og Gróttu og þjálfa upp stuðning við börn sem fylgir þeim í gegnum daginn í skólanum, íþróttum- og tómstundastarfi. Þannig styðjum við börn og fjölskyldur þeirra, sem og kennara og annað fagfólk sem með börnum vinnur í að skapa umhverfi þar sem öllum getur liðið vel.
Grunnskóli
Nú þegar þriðji áratugur nýrrar aldar er hafinn er ljóst að við búum bæði við flóknari og hraðari breytingar en nokkru sinni fyrr, sem auk þess reynast okkur mannfólkinu mörgu hverju erfiðar. Nýlegar rannsóknir sýna að börn sem hefja skólagöngu í dag, eiga eftir að skipta um vinnu meira en ellefu sinnum frá átján ára aldri til fjörutíu og tveggja ára og allt að tuttugu og tveimur sinnum áður en á eftirlaun er farið. Meira en helmingur þeirra starfa sem þau eiga eftir að vinna við, hefur enn ekki verið fundinn upp.
Samfylking og óháðir á Seltjarnarnesi vilja klára vinnu við menntastefnu á Seltjarnarnesi þar sem barnið er í brennidepli og áhersla er á samstarf skóla, félagsþjónustu, foreldra, íþrótta- og tómstundastarfs. Markmiðið sé að öll börn fái tækifæri til að blómstra og byggja upp styrk til að mæta framtíð sinni af hugrekki, hver sem hún verður.
Framundan eru ákveðin þáttaskil í skólunum okkar þegar okkar reynslumesta fólk lætur af störfum sökum aldurs, á sama tíma og yfirvofandi kennaraskortur er á landinu. Samfylking og óháðir vilja gera grunnskólann að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir öfluga, skapandi og framsækna kennara á sama tíma og staða núverandi mannauðs verður treyst. Samfylking og óháðir vilja skapa skólanum umgjörð sem er hvetjandi og laðar kennara af öllum kynjum til starfa en blandaður vinnuhópur skapar betri starfsanda á vinnustöðum. Á sama tíma er ekki síður mikilvægt að bæði stelpur og strákar hafi öflugar fyrirmyndir af báðum kynjum en slíkt bætir bæði nám bæði drengja og stúlkna.
Við viljum koma á fót öflugum þróunarsjóði í tengslum við nýja menntastefnu þar sem kennarar á öllum skólastigum geta sótt um fjárveitingu fyrir verkefni sem byggja á nýrri menntastefnu og stuðla að framþróun og nýsköpun í starfinu. Við viljum valdefla kennara, veita þeim sjálfstæði til að þróa sig sem fagmenn og rými til að þróa nám og kennslu í skólanum. Til að framsækin skólaþróunarverkefni geti þrifist þvert á námsgreinar, bekki og skólastig þurfa kennslustofur að vera búnar nútíma tæknibúnaði. Með því bætum við starfsaðstæður kennara á sama tíma og við sköpum börnunum okkar framsækið námsumhverfi sem er í takt við samfélagið utan veggja skólans.
Mikilvægt er að auka faglegan stuðning í skólunum og efla skólaþjónustu til að geta aukið snemmtæka íhlutun og veitt viðunandi úrræði á réttum tíma til að tryggja að engin börn falli á milli kerfa. Rannsóknir sýna að ef gripið er markvisst inn í með viðunandi stuðning í leikskóla og yngstu bekkjum grunnskólans sparast miklir fjármunir í dýrum úrræðum seinna á skólagöngunni ásamt því að farsæld barna eykst.
Mikilvægt er að huga að líðan barna í námi og leik innan veggja skólans og skapa öruggt umhverfi þar sem öllum börnum líður vel. Samfylking og óháðir vilja efla enn frekar samstarf heimilis og skóla til að ná fram því markmiði. Við leggjum áherslu á að áætlanir og verkferlar í tengslum við einelti verði teknar upp og endurskoðaðir. Á sama tíma þarf að skýra sérstaklega viðbrögð og forvarnir við stafrænu ofbeldi. Við viljum auka kynfræðslu og hinseginfræðslu í grunnskóla Seltjarnarness með áherslu á kynheilbrigði og virðingu í samskiptum og samböndum.
Það er forgangsatriði að ráðast í heildarendurbætur á skólalóð Grunnskóla Seltjarnarness. Skólalóð barnanna okkar er vettvangur frjálsa leiksins og félagsmótunar og er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta og aðlaðandi aðstöðu til leiks. Tómleg skólalóð ýtir undir eirðarleysi barna og verður að kjöraðstæðum fyrir neikvæða hegðun, stríðni og einelti. Við viljum nýjan fótboltavöll við Mýró sem býður upp á tækifæri til að leika á þremur völlum í einu. Fjölga þarf leiktækjum ásamt því að búa til náttúrulegt leikumhverfi sem ýtir undir ímyndunarleiki og vellíðan.
Samfylking og óháðir vilja:
- Klára vinnu við nýja menntastefnu þar sem barnið er í brennidepli og kerfin okkar vinna saman að því að aðlaga sig og mæta þörfum barnanna okkar
- Skapa eftirsóknarverðan vinnustað fyrir nýja kennara
- Efla faglegan stuðning í skólunum
- Efla skólaþjónustu, beita snemmtækri íhlutun og veita viðunandi úrræði
- Setja á fót öflugan þróunarsjóð sem styrkir verkefni sem að byggja á menntastefnunni
- Nútímavæða kennslustofur og búnað kennara
- Stuðla að blönduðum fyrirmyndum með fjölgun karlkennara
- Auka kynfræðslu og hinseginfræðslu í samstarfi við utanaðkomandi sérfræðinga
- Endurskoða og efla verkferla og áætlanir í eineltismálum
- Ráðast í heildar endurbætur á skólalóð Grunnskóla Seltjarnarness, byggja upp útikennslustofu og setja upp hjólaskýli
Leikskóli
Samfylking og óháðir ætla ráðast strax í byggingu á nýju húsnæði fyrir Leikskóla Seltjarnarness. Endalausir starfshópar, nefndir og vanefndir hafa bitnað harkalega á fagstarfi leikskólans, starfsánægju leikskólakennara sem og ánægju íbúa með utanumhald bæjarins á leikskólanum. Við lítum á fjárfestingu í góðri, aðlaðandi og heilnæmri vinnuaðstöðu fyrir börn og starfsfólk leikskólans sem virðisaukandi fjárfestingu fyrir bæinn til framtíðar, hvort sem litið er til umhverfis-, félags- eða rekstrarlegra þátta. Bygging nýs leikskóla er nauðsynlegt skref til að tryggja öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist í öflugu og vistlegu umhverfi sem börnin okkar eiga skilið.
Nýr leikskóli, öflug menntastefna og fjármagn til skólaþróunar er mikilvægur hlekkur til að viðhalda faglegu starfi og tryggja nýliðun en fyrirséð er talsverð endurnýjun í starfshópi leikskólakennara vegna aldurs, á sama tíma og skortur er á leikskólakennurum í landinu. Samfylking og óháðir vilja klára vinnu við nýja menntastefnu og setja á laggirnar þróunarsjóð sem leikskólakennarar geta sótt um fjármagn til að setja á laggirnar skólaþróunarverkefni sem byggja á menntastefnunni. Mikilvægt er að Seltjarnarnesbær verði opinn fyrir nýsköpun og skólaþróun á forsendum fagfólksins okkar og tryggt verði að fjöldi barna á deildum taki mið af stærð leikskóladeilda og þess fagstarfs sem þar fer fram.
Mikilvægt er að auka faglegan stuðning í skólunum og efla skólaþjónustu til að geta aukið snemmtæka íhlutun og veitt viðunandi úrræði á réttum tíma til að tryggja að engin börn falli á milli kerfa. Rannsóknir sýna að ef gripið er markvisst inn í með viðunandi stuðning í leikskóla og yngstu bekkjum grunnskólans sparast miklir fjármunir í dýrum úrræðum seinna á skólagöngunni ásamt því að farsæld barna eykst.
Samfylking og óháðir vilja:
- Byggja nýjan leikskóla strax sem byggir á vinningstillögu Andrúm
- Klára vinnu við nýja menntastefnu þar sem barnið er í brennidepli og kerfin okkar vinna saman að því að aðlaga sig og mæta þörfum barnanna okkar
- Skapa eftirsóknarverðan vinnustað fyrir nýja leikskólakennara
- Setja á fót öflugan þróunarsjóð sem styrkir verkefni sem byggja á menntastefnunni
- Tryggja öflugt og faglegt leikskólastarf
- Taka inn öll börn frá 12 mánaða aldri
- Endurskoðun fjölda barna á deildum svo fjöldi taki mið af stærð deilda og fagstarfi
- Eyða óvissu um hvenær barn kemst inn á leikskóla
Íþróttir og æskulýðsstarf
Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf hefur verið eitt af aðalsmerkjum Seltjarnarnesbæjar. Samstarf og samfella á milli skóla, tómstunda og Gróttu er til fyrirmyndar en með því hefur tekist að stytta vinnudag barna og unglinga og þar með gefa fjölskyldum meiri tíma til samveru. Markviss stefna í tómstundamálum er órjúfanlegur þáttur í forvörnum sveitarfélagsins. Auk þess sýna rannsóknir að hreyfing stuðli að auknu líkamlegu heilbrigði og betri andlegri líðan.
Mikilvægt er að efla frístundamiðstöð Seltjarnarnesbæjar og endurráða æskulýðsfulltrúa á Seltjarnarnesi. Frístundamiðstöð Seltjarnarnesi á að halda úti öflugu tómstundastarfi fyrir börn og unglinga á Seltjarnarnesi þar sem menntun, forvarnir og afþreying er veitt með heildstæðri þjónustu allan ársins hring. Samfylking og óháðir leggja áherslu á að bilið milli frístundar og félagsmiðstöðvar Seltjarnarness verði brúað þannig að aldurshópurinn 10-12 ára, sem þessa stundina fellur milli skips og báru, njóti sömu þjónustu og aðrir.
Samfylking og óháðir leggja áherslu á tómstundir fyrir allra. Við viljum tryggja að öll börn, óháð efnahag foreldra og félagslegri stöðu, hafi jöfn tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar á Seltjarnarnesi auk þess sem þeim verði gert kleift að sinna hugðarefnum sínum og tómstundum í umsjón hæfra leiðbeinanda. Samfylking og óháðir ætla bjóða öllum börnum á Seltjarnarnesi frá 5 ára aldri 75.000 króna aldri tómstundastyrk.
Íþróttastarfið í Gróttu er órjúfanlegur hluti af samfélaginu á Seltjarnarnesi og viljum vinna markvisst með Gróttu að því að efla faglegt íþróttastarf og auka virkni í starfi félagsins. Samfylking og óháðir leggja áherslu á að spornað verði við brottfalli iðkenda úr Gróttu með því að efla félagslega samheldni í eldri flokkum auk þess að stuðla enn frekar jafnræði í aðstöðu og aðbúnaði milli stúlkna og drengja. Sérstök áhersla verði lögð á það að opna aðgengi aðfluttra og innflytjenda að íþróttastarfi Gróttu og að mynda félagsleg tengsl. Vinna þarf í samráði við Gróttu skýra viðhalds- og framkvæmdaáætlun fyrir íþróttamannvirki Gróttu svo viðhaldi sé sinnt tímanlega og óvissu eytt við fjárhagsáætlunargerð.
Stór hluti ungmenna hættir íþrótta- og tómstundaiðkun eftir grunnskóla. Heilsuefling fyrir þennan aldurshóp og styrking félagslegra tengsla í nærumhverfinu er mikilvæg á tíma og áframhaldandi menntun er sótt í önnur sveitarfélög. Samfylking og óháðir vilja koma á laggirnar rafíþróttadeild á Seltjarnarnesi í samstarfi Selsins og Gróttu.
Samfylking og óháðir vilja:
- Endurráða æskulýðsfulltrúa á Seltjarnarnesi
- Efla frístundamiðstöð Seltjarnarness og Gróttu enn frekar
- Brúa bilið á milli frístunda og félagsmiðstöðvar fyrir aldurshópinn 10-12 ára.
- Hækka frístundastyrkinn úr 50.000 í 75.000 fyrir öll börn 5 ára og eldri
- Sporna við brottfalli úr íþróttastarfi Gróttu
- Tryggja jafnt aðgengi og aðbúnað stráka og stúlkna í íþróttastarfi Gróttu
- Tryggja öryggi, aðstöðu og og tækifæri allra kynja til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi
- Treysta félagsleg tengsl með aðstoð við börn innflytjenda og aðflutt börn
- Vinna viðhalds- og framkvæmdaáætlun fyrir íþróttamannvirki Gróttu svo viðhaldi sé sinnt og óvissu eytt
- Setja á laggirnar rafíþróttadeild á Seltjarnarnesi í samstarfi Selsins og Gróttu
Listkennsla og listaskólar
Listkennsla og menningaruppeldi er forsenda skapandi hugsunar sem einnig er skilgreind sem lykilfærni í heimi sem tekur miklum breytingum frá degi til dags. Á sama tíma lífga og lita listir og menning umhverfi okkar og bjóða okkur tilbreytingu frá lífsins amstri. Seltjarnarnes hefur alla burði til að verða skapandi og skemmtilegt samfélag þar sem rými er fyrir það skipulagða til jafns við það óvænta og sjálfsprottna.
Samfylking og óháðir vilja að listir verði snar þáttur í uppeldi og kennslu barna og ungmenna á Seltjarnarnesi. Við viljum tryggja öfluga verk- og listkennslu á öllum skólastigum með aðkomu listamanna í tímabundnum verkefnum. Við viljum sjá til þess að öllum grunnskólabörnum standi til boða leikhús-, safna- og/eða tónleikaferð á hverju skólaári, þeim að kostnaðarlausu. Samfylking og óháðir vilja treysta frekar rekstur Tónlistarskóla Seltjarnarness ásamt því að sinna betur viðhaldi á húsnæði skólans.
Samfylking og óháðir vilja:
- Tryggja öfluga verk- og listkennslu á öllum skólastigum.
- Bjóða upp á leikhús-, safna- og tónleikaferðir fyrir skólabörn, þeim að kostnaðarlausu.
- Treysta frekar rekstur og bæta viðhald í Tónlistarskóla Seltjarnarness
- Byggja upp Barnamenningarhátíð
- Búa til hvatningarsjóð fyrir unga listamenn.